Um Skuldlaus.is


Verið velkomin á vefsvæðið mitt Skuldlaus.is

Ég heiti Haukur Hilmarsson og ég er ráðgjafi í fjármálahegðun. Upphafið að þessu öllu má rekja til janúar 2009 þegar ég þurfti að leggja spilin á borðið og vera hreinskilinn við konuna mína um fjármálin okkar. Ég hafði logið að henni um fjármálin okkar og skuld sem ég taldi henni trú um að væri um 50 þúsund voru í raun talið í milljónum króna. Að verða hreinskilinn með fjárhagsóreiðu mína er eitt það erfiðasta sem ég hef gert á ævi minni. Ég lét tilfinningar mínar, ótta og skömm hafa áhrif á fjármálin mín. Ég faldi skömm mína með því að segja konunni minni ekki frá fjárhagsvanda okkar og ég reyndi án árangurs að laga stöðuna. En ég fékk lausn og ég gat breytt stöðunni – en ég gat þetta þó ekki einn. Ég fékk leiðsögn annarra og þá leiðsögn hef ég skrifað um á Skuldlaus.is. Ég trúi því að þú getir fetað minn veg og fundið þér betri líðan og betri fjármál.

Ég trúi því að þú getir fundið hamingju í lífinu óháð fjárhagsstöðu.

Árið 2010 fór ég í nám í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands til að læra að hjálpa öðrum. Við þurfum góða og einlæga leiðsögn fagaðila, einhvers sem skilur að á bakvið óskipulag og óreiðu er fólk sem þarf leiðsögn út úr vanda sínum. Fólk sem þarf fyrst að sjá huga sinn og tilfinningar áður en það tekst á við fjármálin sín. Ég lauk BA námi 2013 og lokaritgerðin mín, Sjálfstjórn og fjármálavandi, fjallaði um fjármál og tilfinningar.

Ég er líka vottaður fjármálafélagsráðgjafi, á ensku financial social worker. Sú menntun gaf mér enn betri sýn á hve mikilvægt er að bæta hegðun og hugarfar áður en við bætum fjármálin.

Árið 2014 gaf ég út verkefnabókina Betri fjármál. Þar hef ég sett saman gott jafnvægi á milli fjármálaverkefna og persónulegra verkefna um hegðun okkar og hugarfar í fjármálum. Bókin er skrifuð fyrir alla, hvort sem þú ert bara að bæta það sem gott er eða ert í alvarlegum fjárhagsvanda. Ég hef séð bókina virka og ég trúi því að hún hjálpi þeim sem það vilja.

Ég hef mikla trú á efninu mínu og ég hef notað það sem kennsluefni fyrir félagsráðgjafanema við Háskóla Íslands og við fjölda annarra námskeiða eins og hjá Vinnumálastofnun, Endurmenntun Háskóla Íslands, Félagsþjónustur sveitarfélaga, og meira segja í útvarpsþáttum.

Kynntu þér ferðalagið sem bætti líf mitt – og fjármálin. Ég hef fulla trú á að það bæti líf þitt og allra landsmanna.

 

Þú getur fylgt mér á LinkedIn eða Facebook

Hafir þú frekari spurningar um fjármálahegðun og/eða efni á þessum síðum er tölvupóstfangið [email protected]

Með vinsemd og virðingu,

Haukur

Skuldlaus.is

[email protected]